Viktor Orri Valgarðsson

Ég er á öðru ári í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, líkar vel og gengur vel.

Hef lengi haft mikinn áhuga á þjóðmálum og talið stjórnarskrá Íslands vera undarlega og úrelta. Ég tel mikilvægan þátt í endurreisn íslensks samfélags vera að þjóðin geri með sér nýjan samfélagssáttmála og nýja stjórnarskrá utan um hann.

Farsælt skipulag samfélagsins og þeirra félaga sem ég hef komið nálægt hefur verið sérstakt áhugamál hjá mér síðustu ár. Ég sat tilraunaþjóðfund um stjórnarskrá í vor og hef fylgst með störfum félags um stjórnarskrá síðan.

Eftirfarandi verkefni eru vissulega ekki nærri jafn umfangsmikil og ný stjórnarskrá lýðveldis er, en eru þó hugsanlega af svipuðum toga og gefa vonandi hugmynd um áhugasvið mitt og metnað á ungum aldri:

Ég sit í Stúdentaráði Háskóla Íslands fyrir hönd Skrökvu, félags flokksbundinna framapotara en hreyfinguna stofnaði ég ásamt öðrum vegna þess að við höfum mikinn áhuga á því að breyta stjórnskipulagi og starfsháttum ráðsins til hins betra. Starfshópur um stjórnsýslu SHÍ var stofnaður í kjölfarið og er ég formaður hans.

Átti stóran þátt í að skrifa lög Skrökvu og einnig lög Keðjunnar (nemendafélags Kvennaskólans), þar sem ég sat í stjórn og við breyttum stjórnskipan. Hef einnig lengi barist fyrir umbótum á grundvallarskipulagi Morfís, skipt mér af störfum og skipulagi SÍF (Sambandi íslenskra framhaldsskólanema) og stofnað og skipulagt ræðukeppnirnar Þrasið og Sófíu.

Þrátt fyrir að uppfylla steríótýpísk skilyrði um "Morfís, stúdentapólitík og nemendafélög" hef ég aldrei verið bundinn við eða starfað fyrir stjórnmálaflokka heldur hef ég reynt að standa á hliðarlínunni og meta stjórnmálin hlutlaust og yfirvegað hverju sinni. Stenst þó ekki mátið að bjóða mig fram á þetta stjórnlagaþing, þar sem mér þykir verkefnið afar þarft og spennandi og vil að fersk sýn og sjónarmið ungs fólks á Íslandi komi að gerð nýrrar stjórnarskrár.

Ábyrgðarmaður skv. Þjóðskrá: Viktor Orri Valgarðsson

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband