Hvers vegna eigum við að kjósa á laugardaginn?

"Hvers vegna í ósköpunum ætti þjóðin að skilja stjórnarskrána?" var ég spurður í einni af fjöldamörgum umræðum sem ég hef átt við efasemdarmenn um stjórnlagaþing.

Hvers vegna ætti þjóðin að skilja stjórnarskrána þegar lögfræðingar skilja hana? Hvers vegna ætti þjóðin að fá að móta stjórnmálin þegar stjórnmálamenn og lögspekingar hafa erfiðað við að skapa venju um áratugaskeið?

Ég velti fyrir mér hvað "í ósköpunum" stjórnarskrá er í hugum þeirra sem aðhyllast þessi sjónarmið. Er hún bara fyrir lögfræðinga? Er hún leiktæki valdhafa?

Að sjálfsögðu ekki.

Stjórnarskrá er eign þjóðarinnar. Stjórnarskrá er beinlínis yfirlýsing þjóðarinnar gagnvart valdhöfum, hún setur þeim mörk og skýrar leikreglur og hún krefst réttinda fyrir alla borgara. Fyrst og fremst á stjórnarskrá að vera sáttmáli þjóðar um grundvallargildi og valdastoðir samfélagsins.

En við höfum aldrei átt slíka stjórnarskrá.

Stjórnarskrá þjóðar sem aldrei kom að ritun hennar eða undirstöðum, stjórnarskrá sem þjóðin ekki skilur og ber enga virðingu fyrir á ekkert erindi við þá þjóð.

Stjórnarskrá sem takmarkar ekki valdmörk stjórnmálamanna heldur leyfir þeim að móta þau að eigin vild og venju með óskýrum og ruglingslegum stjórnkerfisákvæðum á ekkert erindi við sína þjóð.

Stjórnarskrá sem byggir á sögulegri arfleið og forréttindum yfirstéttar, sem endurspeglar ekki hugmyndir eða vald fólksins, á ekkert erindi við sína þjóð.

Því það er þjóðin sem skapar samfélagið, þjóðin sem byggir þetta land sem hefur óskoraðan rétt til að móta sitt stjórnkerfi, sín réttindi og valdmörk sinna fulltrúa.

Það er grundvöllur nútímahugmynda um lýðræði að þegar allt kemur til alls er valdið okkar; samfélagið okkar. Það eru ekki forréttindi embættismanna og lögspekinga að móta og skilgreina þetta samfélag heldur eiga þeir þvert á móti að lúta valdboðum þjóðarinnar.

Allt frá lýðveldisstofnun hefur verið ætlunin að endurskoða stjórnarskrá Íslands í heild, að þjóðin geri sér sinn eigin samfélagssáttmála. Þessu verkefni hefur verið frestað og það svæft um áratugaskeið.  Stjórnmálamenn hafa unað sáttir við að móta eigin forréttindi og íslenska þjóðin hefur í reynd aldrei fengið valdið í sínar hendur.

Menn hafa talað um "nýtt íslenskt lýðveldi" en hugsanlega hefur íslenska þjóðin aldrei fengið sitt sanna lýðveldi; ríki sem byggir á samfélagssáttmála þjóðarinnar. Nú hefur okkur loks verið gefið einstakt tækifæri til að ljúka því verkefni og við megum ekki skorast undan því. Við megum ekki fúlsa við lýðræðinu þegar við stöndum frammi fyrir því.

Sama hvernig okkur finnst stjórnarskráin eiga að vera; sama hvaða stjórnmálaskoðanir, lífsskoðanir og trúarsannfæringu við höfum erum við öll jafngildir borgarar og við megum ekki hafna þessu tækifæri. Mótum sáttmála þjóðarinnar, sköpum betra samfélag fyrir komandi kynslóðir og reisum raunverulegt, íslenskt lýðveldi.

Kjósum á laugardaginn.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Hannesson

Vel að orði komist, menn týna sér svolítið í smáatriðum málsins í þessu sem öðru.

Gleymum ekki um hvað málið snýst áður en rokið er í kappræður um hvort kirkjuna skuli kljúfa frá ríkinu eða hvort kosningakerfinu skuli breyta.

Hvaða þýðingu hefur stjórnlagaþingið 2011 fyrir okkur sem munu gangast undir hina nýju stjórnarskrá? Mikilvægt er að fólk spyrji sig, þegar niðurstöðu verður náð og ný stjórnarskrá liggur vonandi fyrir. Vill fólk hugsa til þess að það fúlsaði við eina tækifærinu sem þjóðin í þessu landi hafði til að hafa áhrif á hana?

-Ég vona að sem fæstir þurfi að hugsa til þess, ég er sammála þér Viktor. Kjósum á laugardaginn !

Heimir Hannesson, 25.11.2010 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband