Ert þú hlynntur aðild Íslands að ESB?

Hvernig í ósköpunum kemur það kosningum til stjórnlagaþings við?

Mér finnst alltaf jafn undarlegt þegar menn reyna að blanda hinu hápólitíska hitamáli, mögulegri aðild landsins að ESB, inn í umræðuna um stjórnlagaþing og stjórnarskrána í hinu víðara samhengi. Það er einfaldlega ekki viðfangsefni þingsins.

Vissulega mun stjórnlagaþing þurfa að skilgreina hvernig breytingar á stjórnarskrá og öðrum lögum fara fram, í stjórnarskránni sjálfri.

Sú umræða þingsins á hins vegar aldrei að taka mið af ESB, enda væri það bæði óviðeigandi og heimskulegt, af eftirfarandi ástæðu:

Stjórnlagaþing getur hvorki komið í veg fyrir aðild að ESB né tryggt hana.

Ef Alþingi og almenningur samþykkir að breyta stjórnarskránni til að ganga í ESB skiptir engu þó stjórnlagaþingið hafi reynt að banna það í þáverandi stjórnarskrá.

Stjórnlagaþing getur heldur ekki ákveðið að ganga í ESB, því sambandið þarf sjálft að samþykkja aðildina sem gerist ekki fyrr en mögulega eftir aðildarviðræður.

Eina leiðin sem ég sé til að stjórnlagaþing geti breytt einhverju hvað ESBaðild varðar er eftirfarandi:

1. Harðir Evrópusinnar ræna völdum á stjórnlagaþinginu í þeim tilgangi að gera framsal ríkisvalds jafn auðvelda og hefðbundna lagasetningu á þingi.

2. Tvö Alþingi og þjóðaratkvæðagreiðsla (sem vonandi verður haldin um nýju stjórnarskrána) samþykkja það þegjandi og hljóðalaust.

3. Ríkisstjórnarmeirihlutinn tekur sig saman um að sleppa því að leggja ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu og samþykkir hana með lágmarksmeirihluta á Alþingi.

4. Þessi skrípaleikur hlýtur síðan blessun ESB með einróma samþykki í ráðherraráðinu og samþykki þjóðþinga allra aðildarríkja.

Nú, svo gætu reyndar harðir Evrópuandstæðingar reynt að leika þýska leikinn (þar sem þetta er sagt um sambandsríkisskipulagið) og festa í stjórnarskrá að „Ísland megi aldrei ganga í ESB og þessu megi ekki breyta í stjórnarskrá“ en ég efast einnig um að sú einkennilega tillaga hlyti brautargengi.

Svona fabúleringar eru vissulega skemmtilegar, en eigum við ekki bara að halda okkur við að ræða raunveruleg og aðkallandi viðfangsefni stjórnlagaþingsins?

ESB-aðild er mikilvægt viðfangsefni þings og þjóðar, en á allt öðrum vettvangi. Eigum við ekki bara að vona að þjóðin fái í reynd að eiga lokaorðið um það mál og sleppa því að blanda því saman við þá stórmerkilegu tilraun sem stjórnlagaþingið sjálft er?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Auðvitað kemur það við kosningum til stjórnlagaþings við.Til hvers er verið að fara í þetta stjórnlagaþing,og auðvitað vill fólk fá að vita það hvaða skoðanir þáttakendur á þessu þingi hafi til ESB veldisins.Þá má spyrja til hvers að leggja til að stjórnarskránni verði breytt að einhverju leyti,ef Evrópusambandið er hvort eð er að fara að gleypa okkur,þá er til einskis að hafa þetta stjórnlagaþing.    Íslandi Allt,,aldrei ESB.

n (IP-tala skráð) 18.11.2010 kl. 23:27

2 identicon

ESB hefur nú ekki gleypt stjórnarskrár aðildaríkja sinna, heldur eru sett inn fáein ákvæði um samstarfið og heimild ríkisvaldsins til að fela alþjóðastofnunum ákveðin verkefni og völd.

Ég geri mér grein fyrir því að menn hafa flestir sterkar skoðanir á ESB en það kemur viðfangsefnum stjórnlagaþingsins ekki við og á ekki að skyggja á þau.

Viktor Orri Valgarðsson (IP-tala skráð) 21.11.2010 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband