Mannréttindi og lýðræði í reynd

Stjórnskipan ríkisins er mikilvæg umgjörð samfélagsins, en allra mikilvægasta hlutverk stjórnarskrárinnar er hins vegar að tryggja réttindi allra og lýðræði í reynd.

Mannréttindakafli núverandi stjórnarskrár er ágætur en ég mundi þó vilja enn víðtækari mannréttindi í stjórnarskránni auk þess sem allur texti hennar þarf að byggja á þeim réttindum; réttindum þjóðar en ekki þings (sem núverandi stjórnarskrá virðist gera á köflum). Auk þess þarf réttur allra til lýðræðislegrar þátttöku að vera miklu betur tryggður en nú er.

Hugsjónin um lýðræði gengur út á það að allt ríkisvald sé í höndum almennings en í iðnaðarþjóðfélögum seinni tíma hefur þessi hugmynd verið útfærð með kjöri fulltrúa sem fara með vald fólksins milli kosninga. Sumir hafa síðan viljað ganga svo langt að takmarka vald lýðsins algjörlega við slíkar kosningar (Bretar og fleiri þingstjórnarsinnar) og þekkjum við Íslendingar það ástand of vel.

Þessari þróun vil ég snúa við, ég vil færa valdið aftur til fólksins í reynd og stórauka beint lýðræði á Íslandi. Ég tel að íslensk stjórnarskrá (og íslenskt samfélag) eigi tvímælalaust að byggja á valdi fólksins og helst þyrfti fyrsta grein hennar að árétta sérstaklega að ríkisvaldið eigi uppsprettu sína hjá fólkinu (líkt og sú þýska gerir).

Stjórnarskráin á síðan öll að byggja á þessum hugmyndum og raunhæfri framkvæmd þeirra. Þannig vil ég t.d. að eftirfarandi aðilar hafi vald til að boða bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál og lagafrumvörp:

  • Forseti lýðveldisins

  • Minnihluti Alþingis (þriðjungur þingmanna)

  • Tiltekinn hluti þjóðarinnar (nákvæm tala er útfærsla, t.d. 20%)

Og vona ég hvoru tveggja að möguleikinn um þessi úrræði valdi því að valdhafar hlunnfari ekki vilja þjóðarinnar, og að þjóðaratkvæðagreiðslum verði raunverulega beitt í auknum mæli til að tryggja að stefna ríkisins byggi á vilja fólksins.

Fleiri mannnréttindi sem ég vil tryggja í stjórnarskránni:

  • Ríkisvaldið beri jafna virðingu fyrir öllum lífsskoðunum; engin ríkistrú eða þjóðkirkja

  • Aðgangur að hreinu vatni, fæðu og húsaskjóli verði talinn til mannréttinda

  • Jafnréttisákvæði nái til kynhneigðar, fötlunar og jafnvel aldurs (eins og þau gera í flestum nýlegum stjórnarskrám)

  • Jafnt vægi atkvæða allra ríkisborgara sé tryggt í kosningum (ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til kjördæmaskipunar í stjórnarskrá ef þetta er skýrt)

  • Allir sjálfráða íslenskir ríkisborgarar hafi kosningarétt og kjörgengi til allra kjörinna embætta, einnig til forseta og þó þeir hafi flekkað mannorð. Ég vil að almenningur kjósi sér fulltrúa í þessi embætti án slíkra takmarkana í stjórnarskrá

  • Ríkinu beri skylda til að tryggja öll þessi réttindi, jafnrétti og jöfn tækifæri allra borgara til þátttöku í samfélaginu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband