Löggjafar- og framkvæmdavald

Vinsælt viðfangsefni þeirra sem vilja nýja stjórnarskrá er hin margrómaða þrískipting ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald; hugmyndafræði sem gengur út á þá sjálfsögðu lýðræðishugsun að vald í samfélaginu safnist ekki allt á hendur ákveðinna aðila eða hópa. Það hefur hins vegar reynst torvelt í þingræðisríkjum Evrópu þar sem ríkisstjórnir þurfa að sitja í trausti þingsins og framkvæmdavald og löggjafarvald tengist þannig óhjákvæmilega.

Hreint forsetaræði, eins og tíðkast t.d. í Bandaríkjunum, skilur þessar greinar ríkisvaldsins mun skýrar að þar sem forseti er kosinn sérstaklega og skipar ríkisstjórn sem ekki ber ábyrgð gagnvart þinginu.

Ég held hins vegar ekki að það fyrirkomulag sé viðeigandi á Íslandi heldur tel ég lýðræðislegra að ríkisstjórnir séu skipaðar af þjóðþinginu, sem geti veitt henni aðhald og eftirlit frekar en að allt þetta vald sé falið einum einstaklingi, sem kannski nýtur trausts minnihluta þjóðarinnar (hefur t.d. stuðning 30% þjóðarinnar meðan aðrir frambjóðendur hafa minna fylgi) og ber ekki ábyrgð gagnvart neinum. Þetta er sérstaklega varasamt í jafn litlu kunningjasamfélagi og Ísland er.

Þess vegna vil ég eins og áður sagði þrískipta ríkisvaldinu á svolítið öðruvísi hátt, fela forsetanum aðhalds- og eftirlitsvald, hluta af framkvæmdavaldinu og setja hann stjórnskipulega yfir dómstóla, en láta ríkisstjórnina sem fer með daglegan rekstur og stefnumótun ríkisins bera ábyrgð gagnvart Alþingi.

Ég tel almennt samráð og málefnalega umræðu á Alþingi auk þess mikilvægt og vil auka vægi minnihluta þingsins. Hefð fyrir meirihlutastjórnum á Íslandi og úrræðaleysi minnihlutans á Alþingi hefur skipað stjórnarandstöðu og stjórnarmeirihluta í skotgrafir í stað þess að þingið í heild hafi sjálfstætt aðhald með ríkisstjórninni eins og þingræðiskenningin kallar eftir.

Upphrópanir og málþóf í ræðustól á Alþingi hefur hins vegar ekki veitt heilbrigt aðhald heldur þvert á móti skapað óboðlega stjórnmálamenningu. Hlutverk stjórnarskrárinnar er að mínu viti að skapa leikreglur og umhverfi fyrir stjórnmálin sem ýta undir betri menningu og raunverulegt aðhald.

Eftirfarandi eru mínar hugmyndir í þá átt og vangaveltur því tengdar:

  • Aukið vægi minnihlutans á Alþingi; þriðjungur þingmanna geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög og farið fram á að Hæstiréttur úrskurði um hvort þau standist stjórnarskrá

  • Ráðherrar séu ekki þingmenn. Hvoru tveggja ætti að vera fullt starf auk þess sem það skerpir vonandi á skilum milli greina ríkisvaldsins að sömu aðilar gegni ekki báðum embættum í senn

  • Ráðherrum sé skylt að svara spurningum alþingismanna eftir bestu vitund og þeim sé skylt að veita Alþingi allar upplýsingar um starfsemi og stefnu ríkisins

  • Löggjafarvaldið á að vera hjá Alþingi í reynd en ekki ríkisstjórn og ráðuneytum. Ráðuneytin búa þó yfir starfskrafti sem hefur sérþekkingu og reynslu við tæknilega útfærslu frumvarpa, hvað með að meirihluti þingnefnda geti farið fram á að ráðuneyti semji frumvörp með ákveðnum markmiðum og innihaldi?

  • Ég hallast að því að dreifa framkvæmdavaldinu milli ráðherra í stað þess að safna því á hendur forsætisráðherra og fjölskipuðu stjórnvaldi; þá þarf vald einstakra ráðherra og ábyrgð yfir sínum málaflokki hins vegar að vera alveg skýr. Einnig vil ég skoða að ákveðin mál séu tekin sameiginlega fyrir í ríkisstjórn

Í næstu færslu mun ég síðan fjalla meira um lýðræðisumbætur og um mannréttindaákvæði...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband