Forsetaembættið og dómsvald

Eins og ég hef áður sagt tel ég að stjórnkerfi Íslands þurfi að tryggja aðhald og eftirlit með valdhöfum án þess þó að hverjum og einum sé falið svo mikið vald að framgangur lýðræðisins sé hindraður.

Slíkt íhald er t.d. innbyggt í stjórnkerfi Bandaríkjanna, sem dreifir valdi svo víða og veitir svo mörgum aðilum neitunarrétt að afar erfitt er að koma umbótum og breytingum í gegnum kerfið. Í þannig ástandi er auðvelt fyrir íhaldsmenn og lobbýista að misbeita stöðu sinni og átakapólitík getur valdið verulegri ákvarðanatregðu.

Hins vegar þarf að tryggja aðhald og tempra meirihlutaræði og flokksræði verulega. Þeir sem hafa það hlutverk að framfylgja vilja fólksins mega ekki taka ákvarðanir einungis eftir flokkslínum og meirihluti Alþingis má ekki valta yfir minnihlutann. Það þurfa fleiri aðilar að koma að borðinu og raunveruleg umræða og samráð þarf að fara fram um málefni til að ná samstöðu um skynsamlega niðurstöðu.

Ég vil lýsa mínum hugmyndum í átt að þessum markmiðum en minni á að svona veigamiklar tillögur eru ekki órjúfanleg kosningaloforð, heldur hugmyndir sem þarf að skoða og ræða betur.

Ég vil auka póltiískt vægi þjóðkjörins forseta til að veita nauðsynlegt aðhald við framkvæmdavaldið. Ég tel eðlilegt að þjóðhöfðinginn hafi raunveruleg völd og hlutverk í stjórnsýslu og stjórnmálum og að hann sé kjörinn með það í huga.

Í Frakklandi er forsetaembættið t.d. áberandi og valdamikið (margir Íslendingar þekkja t.d. forseta Frakklands, Nicolas Sarkozy, en færri kunna deili á forsætisráðherranum, Francois Fillon). Þar fer forsetinn fyrir ríkinu á alþjóðavettvangi og hefur nokkur pólitísk völd. Áður kom hann oft úr öðrum flokki en forsætisráðherrann og gat veitt honum aðhald en í dag hafa kjörtímabil þeirra verið samræmd svo þeir koma alltaf úr sama flokknum. Sami stjórnmálaflokkur vinnur, jú, yfirleitt tvær kosningar séu þær haldnar á sama tíma.

Ég tel hins vegar að forseti geti varla veitt mikið aðhald komi hann nánast sjálkrafa úr meirihlutaflokki á Alþingi. Því sé ég fyrir mér að binda í stjórnarskrá að kjörtímabil forseta og Alþingis sé fjögur ár en að ætíð sé kosið á tveggja ára fresti, sitt á hvað.

Sé þing rofið eða vantraust samþykkt á forseta á tímabilinu væri semsagt kosið í viðkomandi embætti hið fyrsta, en hitt embættið tveimur árum síðar.

Fleiri hugmyndir þessu tengdar og um dómsvaldið:

  • Forseti skipi alla dómara eftir hæfnismati fagnefndar með samþykki meirihluta Alþingis
  • Hæstiréttur verði bundinn í stjórnarskrá en fjöldi dómstiga ákveðinn með lögum
  • Hæstiréttur geti farið yfir lagafrumvörp að beiðni forseta eða minnihluta Alþingis og gefið Alþingi álit um það hvort lögin standist stjórnarskrá
  • Forseti fari fyrir ríkinu á alþjóðavettvangi og geri samninga við önnur ríki, sem Alþingi þurfi þó að samþykkja
  • Forseti geti áfram vísað lögum til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu
  • Kjörgengisaldur til forseta sé lækkaður í 18 ár
  • Varaforseti mögulega kosinn samhliða (en aðskilið) forseta til að fara með vald forseta í fjarveru hans
  • Forseta sé jafnvel falið frekara vald til aðhalds og eftirlits með framkvæmdavaldi, stjórnskipulega settur yfir Seðlabanka? Ríkissaksóknara? Lögregluna? Skoða alla þessa möguleika
Ég mun síðan fjalla um samband löggjafarvalds og framkvæmdavalds, mannréttindi, kosningar og önnur ákvæði í næstu færslum...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðar pælingar hjá þér.

 Djöfull er það spennandi verkefni að hanna stjórnkerfi, svona ef út í það er farið.

Ég veit ekki alveg með að hafa forseta bæði yfir skipan dómara, og svo mögulega yfir elementum framkvæmdavalds eins og lögreglu, eða stofnun eins og seðlabanka.

En það má auðvitað skoða eins og annað.

Andrés (IP-tala skráð) 4.11.2010 kl. 18:52

2 Smámynd: Viktor Orri Valgarðsson

Takk fyrir það.

Já, ég hef nokkrar hugmyndir um hvernig má auka vægi forsetans í stjórnkerfinu, en það þarf auðvitað ekki að fara allar þessar leiðir og ég geri í raun síður ráð fyrir því, það verður að vara sig á að leggja ekki of mikið vald í hendur eins manns.

Þó held ég að það sé alveg hóflegt að bæta fleiri hlutverkum en skipun dómara í hans verksvið.

Viktor Orri Valgarðsson, 4.11.2010 kl. 19:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband