Helstu hugmyndir mínar um stjórnarskrá Íslands

Þeim er nenntu að lesa einhverjar (eða jafnvel allar) sértækar og ítarlegar færslur um hugmyndir mínar um stjórnarskrá Íslands þakka ég innilega fyrir þolinmæðina. Hér á eftir dreg ég saman þessar helstu hugmyndir og vísa í fyrri færslur til nánari upplýsinga. Bendi á myndræna framsetningu sem má finna undir flipanum "Áhersla" á framboðssíðu minni á facebook: http://www.facebook.com/pages/Viktor-Orri-Valgardsson-frambod-til-stjornlagabings/103359019729972?v=app_7146470109&ref=ts

Mér þætti gaman að fá spurningar um önnur mál sem ég hef ekki reifað hér og mun svara þeim eftir bestu getu, en minni á að eiginleg kosningaloforð eru að mínu mati röng nálgun við svona umfangsmikið og umdeilt verkefni. Ég þykist ekki ætla að keyra öll þessi mál í gegn og þykist ekki heldur hafa mótað mér endanlega skoðun á öllu því sem viðkemur stjórnarskránni; það er mikilvægt að hafa opinn huga og hlusta á rök, bæði fyrir og eftir kosningar til stjórnlagaþings.

Ég hef hins vegar auðvitað ákveðna stefnu og hugmyndir um stjórnarskrána og ég tel nauðsynlegt að frambjóðendur kynni það fyrir kjósendum:

 

Hvers vegna býð ég mig fram til stjórnlagaþings?

Ég er þeirrar skoðunar að það sé stór hluti af endurreisn íslensks þjóðfélags að þjóðin geri með sér nýjan samfélagssáttmála og stjórnarskrá utan um hann.

Ég hef mikinn áhuga á þjóðmálunum og tel mikilvægt að ungt fólk hafi fulltrúa á stjórnlagaþingi. Ég legg sjálfur m.a. áherslu á beint lýðræði og samstöðulýðræði, skynsamlega valddreifingu, ótvíræð mannréttindi og umbætur á stjórnskipan.

Stjórnarskráin þarf að vera skýr og hún þarf að skilgreina ábyrgð valdhafa og réttindi borgara í reynd. Hún má ekki vera einkamál lögfræðinga.

Er á öðru ári í stjórnmálafræði við HÍ, sit í Stúdentaráði fyrir Skrökvu og hef sinnt ýmsum félagsstörfum.

 

Almenn stefna

Vil skrifa nýja og betri stjórnarskrá frá grunni en með núverandi stjórnarskrá og aðrar góðar til hliðsjónar

Allir valdhafar hafi skýrum hlutverkum að gegna, völd þeirra og valdmörk séu vel skilgreind og sömuleiðis ábyrgð þeirra á stjórnarathöfnum

Íslenska ríkið byggi á valdi og sjálfræði fólksins

Legg mikla áherslu á skynsamlegar en róttækar breytingar á stjórnskipun ríkisins, samstöðulýðræði og beint lýðræði.

 

Aukin völd forsetaembættis, forseti veiti þingræðisríkisstjórn ríkt aðhald

Forseti hafi áfram vald til að vísa lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu

Forseti skipi dómara að ráði fagnefndar og með samþykki (aukins?) meirihluta Alþingis

Forseti fari með hluta framkvæmdavalds, fari fyrir ríkinu á alþjóðavettvangi og geri samninga sem Alþingi staðfestir

Varaforseti jafnvel kosinn samhliða forseta, kjörgengisaldur lækkaður í 18 ár

Skoða frekari leiðir til að auka eftirlitsvald forsetaembættisins


Löggjafarvald hjá Alþingi í reynd, stjórnkerfið ýti undir samráð og málefnalega umræðu

Aukið vægi minnihlutans á Alþingi, þriðjungur þingmanna geti boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um lög og farið fram á að Hæstiréttur úrskurði um hvort þau standist stjórnarskrá

Ráðherrar séu ekki þingmenn

Ráðherrum sé skylt að svara spurningum alþingismanna eftir bestu vitund og þeim sé skylt að veita Alþingi allar upplýsingar um starfsemi og stefnu ríkisins

Ráðherrar leggi ekki fram frumvörp en þingnefndir geti farið fram á að ráðuneyti semji frumvörp

Skýrt vald og ábyrgð einstakra ráðherra yfir sínum málaflokkum, einhverjar ákvarðanir hugsanlega teknar sameiginlega í ríkisstjórn


Mannréttindi og lýðræði í reynd, ríkisvaldið eigi uppsprettu sína hjá fólkinu

Ákveðinn hluti þjóðar geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál og lög

Aðgangur að hreinu vatni, fæðu og húsaskjóli verði talinn til mannréttinda

Jafnréttisákvæði nái til kynhneigðar, fötlunar og jafnvel aldurs

Jafnt vægi atkvæða allra ríkisborgara sé tryggt í kosningum (ekki endilega nauðsynlegt að taka afstöðu til kjördæmaskipunar í stjórnarskrá ef þetta er skýrt)

Allir sjálfráða íslenskir ríkisborgarar hafi kosningarétt og kjörgengi til allra kjörinna embætta

Ríkinu beri skylda til að tryggja öll þessi réttindi, jafnrétti og jöfn tækifæri allra borgara til þátttöku í samfélaginu


Annað mikilvægt

Ný stjórnarskrá verði lögð beint í þjóðaratkvæðagreiðslu án beinna afskipta Alþingis

Stjórnarskrá megi framvegis breyta með einföldum meirihluta Alþingis og lögð í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu til staðfestingar

Upplýsingar um alla starfsemi, stefnu og ákvarðanatöku ríkisins skulu vera almenningi opnar og aðgengilegar nema ríkir almannahagsmunir eða einstaklingsréttindi krefjist leyndar

Ríkisvaldið beri jafna virðingu fyrir öllum lífsskoðunum; engin ríkistrú eða þjóðkirkja

Náttúruauðlindir landsins séu í sameign þjóðarinnar og nýting þeirra skuli ákveðin í lögum með þjóðarhag að leiðarljósi

Ákvörðun um aðild í og stuðningur við stríðsátök verði aðeins tekin með auknum meirihluta á Alþingi (jafnvel þjóðaratkvæðagreiðslu), herskyldu megi aldrei í lög leiða

Frekari upplýsingar og kynning á mér og mínu framboði:

Opinber kynning dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins: http://www.kosning.is/stjornlagathing/frambjodendur/nr/2831

Svipan.is: http://www.svipan.is/?p=15638

Spurningar á DV.is: http://www.dv.is/stjornlagathing/viktor-orri-valgardsson/konnun


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband