Hvers vegna eigum við að kjósa á laugardaginn?

"Hvers vegna í ósköpunum ætti þjóðin að skilja stjórnarskrána?" var ég spurður í einni af fjöldamörgum umræðum sem ég hef átt við efasemdarmenn um stjórnlagaþing.

Hvers vegna ætti þjóðin að skilja stjórnarskrána þegar lögfræðingar skilja hana? Hvers vegna ætti þjóðin að fá að móta stjórnmálin þegar stjórnmálamenn og lögspekingar hafa erfiðað við að skapa venju um áratugaskeið?

Ég velti fyrir mér hvað "í ósköpunum" stjórnarskrá er í hugum þeirra sem aðhyllast þessi sjónarmið. Er hún bara fyrir lögfræðinga? Er hún leiktæki valdhafa?

Að sjálfsögðu ekki.

Stjórnarskrá er eign þjóðarinnar. Stjórnarskrá er beinlínis yfirlýsing þjóðarinnar gagnvart valdhöfum, hún setur þeim mörk og skýrar leikreglur og hún krefst réttinda fyrir alla borgara. Fyrst og fremst á stjórnarskrá að vera sáttmáli þjóðar um grundvallargildi og valdastoðir samfélagsins.

En við höfum aldrei átt slíka stjórnarskrá.

Stjórnarskrá þjóðar sem aldrei kom að ritun hennar eða undirstöðum, stjórnarskrá sem þjóðin ekki skilur og ber enga virðingu fyrir á ekkert erindi við þá þjóð.

Stjórnarskrá sem takmarkar ekki valdmörk stjórnmálamanna heldur leyfir þeim að móta þau að eigin vild og venju með óskýrum og ruglingslegum stjórnkerfisákvæðum á ekkert erindi við sína þjóð.

Stjórnarskrá sem byggir á sögulegri arfleið og forréttindum yfirstéttar, sem endurspeglar ekki hugmyndir eða vald fólksins, á ekkert erindi við sína þjóð.

Því það er þjóðin sem skapar samfélagið, þjóðin sem byggir þetta land sem hefur óskoraðan rétt til að móta sitt stjórnkerfi, sín réttindi og valdmörk sinna fulltrúa.

Það er grundvöllur nútímahugmynda um lýðræði að þegar allt kemur til alls er valdið okkar; samfélagið okkar. Það eru ekki forréttindi embættismanna og lögspekinga að móta og skilgreina þetta samfélag heldur eiga þeir þvert á móti að lúta valdboðum þjóðarinnar.

Allt frá lýðveldisstofnun hefur verið ætlunin að endurskoða stjórnarskrá Íslands í heild, að þjóðin geri sér sinn eigin samfélagssáttmála. Þessu verkefni hefur verið frestað og það svæft um áratugaskeið.  Stjórnmálamenn hafa unað sáttir við að móta eigin forréttindi og íslenska þjóðin hefur í reynd aldrei fengið valdið í sínar hendur.

Menn hafa talað um "nýtt íslenskt lýðveldi" en hugsanlega hefur íslenska þjóðin aldrei fengið sitt sanna lýðveldi; ríki sem byggir á samfélagssáttmála þjóðarinnar. Nú hefur okkur loks verið gefið einstakt tækifæri til að ljúka því verkefni og við megum ekki skorast undan því. Við megum ekki fúlsa við lýðræðinu þegar við stöndum frammi fyrir því.

Sama hvernig okkur finnst stjórnarskráin eiga að vera; sama hvaða stjórnmálaskoðanir, lífsskoðanir og trúarsannfæringu við höfum erum við öll jafngildir borgarar og við megum ekki hafna þessu tækifæri. Mótum sáttmála þjóðarinnar, sköpum betra samfélag fyrir komandi kynslóðir og reisum raunverulegt, íslenskt lýðveldi.

Kjósum á laugardaginn.


Ert þú hlynntur aðild Íslands að ESB?

Hvernig í ósköpunum kemur það kosningum til stjórnlagaþings við?

Mér finnst alltaf jafn undarlegt þegar menn reyna að blanda hinu hápólitíska hitamáli, mögulegri aðild landsins að ESB, inn í umræðuna um stjórnlagaþing og stjórnarskrána í hinu víðara samhengi. Það er einfaldlega ekki viðfangsefni þingsins.

Vissulega mun stjórnlagaþing þurfa að skilgreina hvernig breytingar á stjórnarskrá og öðrum lögum fara fram, í stjórnarskránni sjálfri.

Sú umræða þingsins á hins vegar aldrei að taka mið af ESB, enda væri það bæði óviðeigandi og heimskulegt, af eftirfarandi ástæðu:

Stjórnlagaþing getur hvorki komið í veg fyrir aðild að ESB né tryggt hana.

Ef Alþingi og almenningur samþykkir að breyta stjórnarskránni til að ganga í ESB skiptir engu þó stjórnlagaþingið hafi reynt að banna það í þáverandi stjórnarskrá.

Stjórnlagaþing getur heldur ekki ákveðið að ganga í ESB, því sambandið þarf sjálft að samþykkja aðildina sem gerist ekki fyrr en mögulega eftir aðildarviðræður.

Eina leiðin sem ég sé til að stjórnlagaþing geti breytt einhverju hvað ESBaðild varðar er eftirfarandi:

1. Harðir Evrópusinnar ræna völdum á stjórnlagaþinginu í þeim tilgangi að gera framsal ríkisvalds jafn auðvelda og hefðbundna lagasetningu á þingi.

2. Tvö Alþingi og þjóðaratkvæðagreiðsla (sem vonandi verður haldin um nýju stjórnarskrána) samþykkja það þegjandi og hljóðalaust.

3. Ríkisstjórnarmeirihlutinn tekur sig saman um að sleppa því að leggja ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu og samþykkir hana með lágmarksmeirihluta á Alþingi.

4. Þessi skrípaleikur hlýtur síðan blessun ESB með einróma samþykki í ráðherraráðinu og samþykki þjóðþinga allra aðildarríkja.

Nú, svo gætu reyndar harðir Evrópuandstæðingar reynt að leika þýska leikinn (þar sem þetta er sagt um sambandsríkisskipulagið) og festa í stjórnarskrá að „Ísland megi aldrei ganga í ESB og þessu megi ekki breyta í stjórnarskrá“ en ég efast einnig um að sú einkennilega tillaga hlyti brautargengi.

Svona fabúleringar eru vissulega skemmtilegar, en eigum við ekki bara að halda okkur við að ræða raunveruleg og aðkallandi viðfangsefni stjórnlagaþingsins?

ESB-aðild er mikilvægt viðfangsefni þings og þjóðar, en á allt öðrum vettvangi. Eigum við ekki bara að vona að þjóðin fái í reynd að eiga lokaorðið um það mál og sleppa því að blanda því saman við þá stórmerkilegu tilraun sem stjórnlagaþingið sjálft er?


Helstu hugmyndir mínar um stjórnarskrá Íslands

Þeim er nenntu að lesa einhverjar (eða jafnvel allar) sértækar og ítarlegar færslur um hugmyndir mínar um stjórnarskrá Íslands þakka ég innilega fyrir þolinmæðina. Hér á eftir dreg ég saman þessar helstu hugmyndir og vísa í fyrri færslur til nánari upplýsinga. Bendi á myndræna framsetningu sem má finna undir flipanum "Áhersla" á framboðssíðu minni á facebook: http://www.facebook.com/pages/Viktor-Orri-Valgardsson-frambod-til-stjornlagabings/103359019729972?v=app_7146470109&ref=ts

Mér þætti gaman að fá spurningar um önnur mál sem ég hef ekki reifað hér og mun svara þeim eftir bestu getu, en minni á að eiginleg kosningaloforð eru að mínu mati röng nálgun við svona umfangsmikið og umdeilt verkefni. Ég þykist ekki ætla að keyra öll þessi mál í gegn og þykist ekki heldur hafa mótað mér endanlega skoðun á öllu því sem viðkemur stjórnarskránni; það er mikilvægt að hafa opinn huga og hlusta á rök, bæði fyrir og eftir kosningar til stjórnlagaþings.

Ég hef hins vegar auðvitað ákveðna stefnu og hugmyndir um stjórnarskrána og ég tel nauðsynlegt að frambjóðendur kynni það fyrir kjósendum:

 

Hvers vegna býð ég mig fram til stjórnlagaþings?

Ég er þeirrar skoðunar að það sé stór hluti af endurreisn íslensks þjóðfélags að þjóðin geri með sér nýjan samfélagssáttmála og stjórnarskrá utan um hann.

Ég hef mikinn áhuga á þjóðmálunum og tel mikilvægt að ungt fólk hafi fulltrúa á stjórnlagaþingi. Ég legg sjálfur m.a. áherslu á beint lýðræði og samstöðulýðræði, skynsamlega valddreifingu, ótvíræð mannréttindi og umbætur á stjórnskipan.

Stjórnarskráin þarf að vera skýr og hún þarf að skilgreina ábyrgð valdhafa og réttindi borgara í reynd. Hún má ekki vera einkamál lögfræðinga.

Er á öðru ári í stjórnmálafræði við HÍ, sit í Stúdentaráði fyrir Skrökvu og hef sinnt ýmsum félagsstörfum.

 

Almenn stefna

Vil skrifa nýja og betri stjórnarskrá frá grunni en með núverandi stjórnarskrá og aðrar góðar til hliðsjónar

Allir valdhafar hafi skýrum hlutverkum að gegna, völd þeirra og valdmörk séu vel skilgreind og sömuleiðis ábyrgð þeirra á stjórnarathöfnum

Íslenska ríkið byggi á valdi og sjálfræði fólksins

Legg mikla áherslu á skynsamlegar en róttækar breytingar á stjórnskipun ríkisins, samstöðulýðræði og beint lýðræði.

 

Aukin völd forsetaembættis, forseti veiti þingræðisríkisstjórn ríkt aðhald

Forseti hafi áfram vald til að vísa lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu

Forseti skipi dómara að ráði fagnefndar og með samþykki (aukins?) meirihluta Alþingis

Forseti fari með hluta framkvæmdavalds, fari fyrir ríkinu á alþjóðavettvangi og geri samninga sem Alþingi staðfestir

Varaforseti jafnvel kosinn samhliða forseta, kjörgengisaldur lækkaður í 18 ár

Skoða frekari leiðir til að auka eftirlitsvald forsetaembættisins


Löggjafarvald hjá Alþingi í reynd, stjórnkerfið ýti undir samráð og málefnalega umræðu

Aukið vægi minnihlutans á Alþingi, þriðjungur þingmanna geti boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um lög og farið fram á að Hæstiréttur úrskurði um hvort þau standist stjórnarskrá

Ráðherrar séu ekki þingmenn

Ráðherrum sé skylt að svara spurningum alþingismanna eftir bestu vitund og þeim sé skylt að veita Alþingi allar upplýsingar um starfsemi og stefnu ríkisins

Ráðherrar leggi ekki fram frumvörp en þingnefndir geti farið fram á að ráðuneyti semji frumvörp

Skýrt vald og ábyrgð einstakra ráðherra yfir sínum málaflokkum, einhverjar ákvarðanir hugsanlega teknar sameiginlega í ríkisstjórn


Mannréttindi og lýðræði í reynd, ríkisvaldið eigi uppsprettu sína hjá fólkinu

Ákveðinn hluti þjóðar geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál og lög

Aðgangur að hreinu vatni, fæðu og húsaskjóli verði talinn til mannréttinda

Jafnréttisákvæði nái til kynhneigðar, fötlunar og jafnvel aldurs

Jafnt vægi atkvæða allra ríkisborgara sé tryggt í kosningum (ekki endilega nauðsynlegt að taka afstöðu til kjördæmaskipunar í stjórnarskrá ef þetta er skýrt)

Allir sjálfráða íslenskir ríkisborgarar hafi kosningarétt og kjörgengi til allra kjörinna embætta

Ríkinu beri skylda til að tryggja öll þessi réttindi, jafnrétti og jöfn tækifæri allra borgara til þátttöku í samfélaginu


Annað mikilvægt

Ný stjórnarskrá verði lögð beint í þjóðaratkvæðagreiðslu án beinna afskipta Alþingis

Stjórnarskrá megi framvegis breyta með einföldum meirihluta Alþingis og lögð í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu til staðfestingar

Upplýsingar um alla starfsemi, stefnu og ákvarðanatöku ríkisins skulu vera almenningi opnar og aðgengilegar nema ríkir almannahagsmunir eða einstaklingsréttindi krefjist leyndar

Ríkisvaldið beri jafna virðingu fyrir öllum lífsskoðunum; engin ríkistrú eða þjóðkirkja

Náttúruauðlindir landsins séu í sameign þjóðarinnar og nýting þeirra skuli ákveðin í lögum með þjóðarhag að leiðarljósi

Ákvörðun um aðild í og stuðningur við stríðsátök verði aðeins tekin með auknum meirihluta á Alþingi (jafnvel þjóðaratkvæðagreiðslu), herskyldu megi aldrei í lög leiða

Frekari upplýsingar og kynning á mér og mínu framboði:

Opinber kynning dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins: http://www.kosning.is/stjornlagathing/frambjodendur/nr/2831

Svipan.is: http://www.svipan.is/?p=15638

Spurningar á DV.is: http://www.dv.is/stjornlagathing/viktor-orri-valgardsson/konnun


Að öðru...

Ýmis mál varðandi nýja stjórnarskrá sem ekki fjalla beint undir stjórnskipan eða mannréttindaákvæði hafa verið mikið í umræðunni undanfarið og langar mig aðeins að reifa pælingar um nokkur þeirra.

  • Stjórnarskránni á að vera hægt að breyta með einföldum meirihluta Alþingis og verði breytingin lögð til staðfestingar í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Núverandi ferli er stórundarlegt, þjóðin á að vera endanlegi stjórnarskrárgjafinn og þá ekki í gegnum Alþingiskosningar.

     

  • Eins og fram kom í síðustu færslu er ég fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Það er ekki vegna þess að ég hafi eitthvað á móti kristindómi, menningararfleið Íslendinga eða trúarbrögðum almennt, hreint ekki. Ég tel einfaldlega að það sé ekki í verkahring ríkisvaldsins að taka afstöðu í þeim málum og hygla ákveðnum trúarbrögðum eða lífskoðunum umfram önnur.

     

  • Hin margumrædda þjóðareign á auðlindum er svolítið flókin umræða og virðast menn leggja nokkuð ólíka merkingu í það hugtak, en ég tel sjálfsagt að í setja í stjórnarskrán ákvæði sem væri eitthvað á þá leið að náttúruauðlindir landsins væru í sameign þjóðarinnar og að um nýtingu á þeim skyldi kveðið á í lögum með þjóðarhag að leiðarljósi.

     

  • Aðild og stuðningur Íslands við stríðsátök ætti ekki að vera tekin af einstökum ráðherrum. Þjóðaratkvæðagreiðsla eða aukinn meirihluti þingsins ætti að vera forsenda fyrir svo róttækri yfirlýsingu. Herskyldu megi aldrei leiða í lög á Íslandi.

     

  • Ráðherrar, þingmenn, forseti og aðrir embættismenn eiga ekki að njóta sérstakrar friðhelgi gagnvart lögum eða dómstólum. Að mínu mati á að vera hægt að lögsækja þá alveg eins og aðra borgara og rétta yfir þeim fyrir hefðbundnum dómstólum.

     

  • Ætti ekki að tryggja að ráðning faglegra embættismanna verði í reynd byggð á faglegum forsendum frekar en pólitískum? T.d. að skipun þeirra þyrfti samþykki aukins meirihluta þingmanna til að ganga úr skugga um að ráðningar séu ekki eftir flokkslínum meirihlutans?

     

  • Velti fyrir mér hvort ekki ætti að setja einhvers konar ákvæði um stjórnmálaflokka eins og í þýsku stjórnarskránni. T.d. um að þeir starfi á lýðræðislegum grundvelli og um fjárframlög.

  • Upplýsingar um alla starfsemi, stefnu og ákvarðanatöku ríkisins skulu vera almenningi opnar og aðgengilegar nema ríkir almannahagsmunir eða einstaklingsréttindi krefjist leyndar

Að lokum vil ég nefna að mér finnst mjög mikilvægt að Alþingi krukki ekki í stjórnlagafrumvarpi stjórnlagaþingsins gegn vilja þess, heldur leggi frumvarpið beint fyrir þjóðaratkvæði.

Alþingismenn mega auðvitað koma með athugasemdir og ef stjórnlagaþingið fellst á þær má breyta frumvarpinu, en ég óttast mest að Alþingi geri úr nýrri stjórnarskrá marklaust plagg með málþófi og íhaldi sem kastar öllu þessu starfi á glæ. Ég mundi beita mér mikið fyrir því í umræðunni að alþingismenn vogi sér ekki að eyðileggja þetta magnaða tækifæri heldur láti þjóðina ráða för.


Mannréttindi og lýðræði í reynd

Stjórnskipan ríkisins er mikilvæg umgjörð samfélagsins, en allra mikilvægasta hlutverk stjórnarskrárinnar er hins vegar að tryggja réttindi allra og lýðræði í reynd.

Mannréttindakafli núverandi stjórnarskrár er ágætur en ég mundi þó vilja enn víðtækari mannréttindi í stjórnarskránni auk þess sem allur texti hennar þarf að byggja á þeim réttindum; réttindum þjóðar en ekki þings (sem núverandi stjórnarskrá virðist gera á köflum). Auk þess þarf réttur allra til lýðræðislegrar þátttöku að vera miklu betur tryggður en nú er.

Hugsjónin um lýðræði gengur út á það að allt ríkisvald sé í höndum almennings en í iðnaðarþjóðfélögum seinni tíma hefur þessi hugmynd verið útfærð með kjöri fulltrúa sem fara með vald fólksins milli kosninga. Sumir hafa síðan viljað ganga svo langt að takmarka vald lýðsins algjörlega við slíkar kosningar (Bretar og fleiri þingstjórnarsinnar) og þekkjum við Íslendingar það ástand of vel.

Þessari þróun vil ég snúa við, ég vil færa valdið aftur til fólksins í reynd og stórauka beint lýðræði á Íslandi. Ég tel að íslensk stjórnarskrá (og íslenskt samfélag) eigi tvímælalaust að byggja á valdi fólksins og helst þyrfti fyrsta grein hennar að árétta sérstaklega að ríkisvaldið eigi uppsprettu sína hjá fólkinu (líkt og sú þýska gerir).

Stjórnarskráin á síðan öll að byggja á þessum hugmyndum og raunhæfri framkvæmd þeirra. Þannig vil ég t.d. að eftirfarandi aðilar hafi vald til að boða bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál og lagafrumvörp:

  • Forseti lýðveldisins

  • Minnihluti Alþingis (þriðjungur þingmanna)

  • Tiltekinn hluti þjóðarinnar (nákvæm tala er útfærsla, t.d. 20%)

Og vona ég hvoru tveggja að möguleikinn um þessi úrræði valdi því að valdhafar hlunnfari ekki vilja þjóðarinnar, og að þjóðaratkvæðagreiðslum verði raunverulega beitt í auknum mæli til að tryggja að stefna ríkisins byggi á vilja fólksins.

Fleiri mannnréttindi sem ég vil tryggja í stjórnarskránni:

  • Ríkisvaldið beri jafna virðingu fyrir öllum lífsskoðunum; engin ríkistrú eða þjóðkirkja

  • Aðgangur að hreinu vatni, fæðu og húsaskjóli verði talinn til mannréttinda

  • Jafnréttisákvæði nái til kynhneigðar, fötlunar og jafnvel aldurs (eins og þau gera í flestum nýlegum stjórnarskrám)

  • Jafnt vægi atkvæða allra ríkisborgara sé tryggt í kosningum (ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til kjördæmaskipunar í stjórnarskrá ef þetta er skýrt)

  • Allir sjálfráða íslenskir ríkisborgarar hafi kosningarétt og kjörgengi til allra kjörinna embætta, einnig til forseta og þó þeir hafi flekkað mannorð. Ég vil að almenningur kjósi sér fulltrúa í þessi embætti án slíkra takmarkana í stjórnarskrá

  • Ríkinu beri skylda til að tryggja öll þessi réttindi, jafnrétti og jöfn tækifæri allra borgara til þátttöku í samfélaginu


Löggjafar- og framkvæmdavald

Vinsælt viðfangsefni þeirra sem vilja nýja stjórnarskrá er hin margrómaða þrískipting ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald; hugmyndafræði sem gengur út á þá sjálfsögðu lýðræðishugsun að vald í samfélaginu safnist ekki allt á hendur ákveðinna aðila eða hópa. Það hefur hins vegar reynst torvelt í þingræðisríkjum Evrópu þar sem ríkisstjórnir þurfa að sitja í trausti þingsins og framkvæmdavald og löggjafarvald tengist þannig óhjákvæmilega.

Hreint forsetaræði, eins og tíðkast t.d. í Bandaríkjunum, skilur þessar greinar ríkisvaldsins mun skýrar að þar sem forseti er kosinn sérstaklega og skipar ríkisstjórn sem ekki ber ábyrgð gagnvart þinginu.

Ég held hins vegar ekki að það fyrirkomulag sé viðeigandi á Íslandi heldur tel ég lýðræðislegra að ríkisstjórnir séu skipaðar af þjóðþinginu, sem geti veitt henni aðhald og eftirlit frekar en að allt þetta vald sé falið einum einstaklingi, sem kannski nýtur trausts minnihluta þjóðarinnar (hefur t.d. stuðning 30% þjóðarinnar meðan aðrir frambjóðendur hafa minna fylgi) og ber ekki ábyrgð gagnvart neinum. Þetta er sérstaklega varasamt í jafn litlu kunningjasamfélagi og Ísland er.

Þess vegna vil ég eins og áður sagði þrískipta ríkisvaldinu á svolítið öðruvísi hátt, fela forsetanum aðhalds- og eftirlitsvald, hluta af framkvæmdavaldinu og setja hann stjórnskipulega yfir dómstóla, en láta ríkisstjórnina sem fer með daglegan rekstur og stefnumótun ríkisins bera ábyrgð gagnvart Alþingi.

Ég tel almennt samráð og málefnalega umræðu á Alþingi auk þess mikilvægt og vil auka vægi minnihluta þingsins. Hefð fyrir meirihlutastjórnum á Íslandi og úrræðaleysi minnihlutans á Alþingi hefur skipað stjórnarandstöðu og stjórnarmeirihluta í skotgrafir í stað þess að þingið í heild hafi sjálfstætt aðhald með ríkisstjórninni eins og þingræðiskenningin kallar eftir.

Upphrópanir og málþóf í ræðustól á Alþingi hefur hins vegar ekki veitt heilbrigt aðhald heldur þvert á móti skapað óboðlega stjórnmálamenningu. Hlutverk stjórnarskrárinnar er að mínu viti að skapa leikreglur og umhverfi fyrir stjórnmálin sem ýta undir betri menningu og raunverulegt aðhald.

Eftirfarandi eru mínar hugmyndir í þá átt og vangaveltur því tengdar:

  • Aukið vægi minnihlutans á Alþingi; þriðjungur þingmanna geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög og farið fram á að Hæstiréttur úrskurði um hvort þau standist stjórnarskrá

  • Ráðherrar séu ekki þingmenn. Hvoru tveggja ætti að vera fullt starf auk þess sem það skerpir vonandi á skilum milli greina ríkisvaldsins að sömu aðilar gegni ekki báðum embættum í senn

  • Ráðherrum sé skylt að svara spurningum alþingismanna eftir bestu vitund og þeim sé skylt að veita Alþingi allar upplýsingar um starfsemi og stefnu ríkisins

  • Löggjafarvaldið á að vera hjá Alþingi í reynd en ekki ríkisstjórn og ráðuneytum. Ráðuneytin búa þó yfir starfskrafti sem hefur sérþekkingu og reynslu við tæknilega útfærslu frumvarpa, hvað með að meirihluti þingnefnda geti farið fram á að ráðuneyti semji frumvörp með ákveðnum markmiðum og innihaldi?

  • Ég hallast að því að dreifa framkvæmdavaldinu milli ráðherra í stað þess að safna því á hendur forsætisráðherra og fjölskipuðu stjórnvaldi; þá þarf vald einstakra ráðherra og ábyrgð yfir sínum málaflokki hins vegar að vera alveg skýr. Einnig vil ég skoða að ákveðin mál séu tekin sameiginlega fyrir í ríkisstjórn

Í næstu færslu mun ég síðan fjalla meira um lýðræðisumbætur og um mannréttindaákvæði...


Forsetaembættið og dómsvald

Eins og ég hef áður sagt tel ég að stjórnkerfi Íslands þurfi að tryggja aðhald og eftirlit með valdhöfum án þess þó að hverjum og einum sé falið svo mikið vald að framgangur lýðræðisins sé hindraður.

Slíkt íhald er t.d. innbyggt í stjórnkerfi Bandaríkjanna, sem dreifir valdi svo víða og veitir svo mörgum aðilum neitunarrétt að afar erfitt er að koma umbótum og breytingum í gegnum kerfið. Í þannig ástandi er auðvelt fyrir íhaldsmenn og lobbýista að misbeita stöðu sinni og átakapólitík getur valdið verulegri ákvarðanatregðu.

Hins vegar þarf að tryggja aðhald og tempra meirihlutaræði og flokksræði verulega. Þeir sem hafa það hlutverk að framfylgja vilja fólksins mega ekki taka ákvarðanir einungis eftir flokkslínum og meirihluti Alþingis má ekki valta yfir minnihlutann. Það þurfa fleiri aðilar að koma að borðinu og raunveruleg umræða og samráð þarf að fara fram um málefni til að ná samstöðu um skynsamlega niðurstöðu.

Ég vil lýsa mínum hugmyndum í átt að þessum markmiðum en minni á að svona veigamiklar tillögur eru ekki órjúfanleg kosningaloforð, heldur hugmyndir sem þarf að skoða og ræða betur.

Ég vil auka póltiískt vægi þjóðkjörins forseta til að veita nauðsynlegt aðhald við framkvæmdavaldið. Ég tel eðlilegt að þjóðhöfðinginn hafi raunveruleg völd og hlutverk í stjórnsýslu og stjórnmálum og að hann sé kjörinn með það í huga.

Í Frakklandi er forsetaembættið t.d. áberandi og valdamikið (margir Íslendingar þekkja t.d. forseta Frakklands, Nicolas Sarkozy, en færri kunna deili á forsætisráðherranum, Francois Fillon). Þar fer forsetinn fyrir ríkinu á alþjóðavettvangi og hefur nokkur pólitísk völd. Áður kom hann oft úr öðrum flokki en forsætisráðherrann og gat veitt honum aðhald en í dag hafa kjörtímabil þeirra verið samræmd svo þeir koma alltaf úr sama flokknum. Sami stjórnmálaflokkur vinnur, jú, yfirleitt tvær kosningar séu þær haldnar á sama tíma.

Ég tel hins vegar að forseti geti varla veitt mikið aðhald komi hann nánast sjálkrafa úr meirihlutaflokki á Alþingi. Því sé ég fyrir mér að binda í stjórnarskrá að kjörtímabil forseta og Alþingis sé fjögur ár en að ætíð sé kosið á tveggja ára fresti, sitt á hvað.

Sé þing rofið eða vantraust samþykkt á forseta á tímabilinu væri semsagt kosið í viðkomandi embætti hið fyrsta, en hitt embættið tveimur árum síðar.

Fleiri hugmyndir þessu tengdar og um dómsvaldið:

  • Forseti skipi alla dómara eftir hæfnismati fagnefndar með samþykki meirihluta Alþingis
  • Hæstiréttur verði bundinn í stjórnarskrá en fjöldi dómstiga ákveðinn með lögum
  • Hæstiréttur geti farið yfir lagafrumvörp að beiðni forseta eða minnihluta Alþingis og gefið Alþingi álit um það hvort lögin standist stjórnarskrá
  • Forseti fari fyrir ríkinu á alþjóðavettvangi og geri samninga við önnur ríki, sem Alþingi þurfi þó að samþykkja
  • Forseti geti áfram vísað lögum til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu
  • Kjörgengisaldur til forseta sé lækkaður í 18 ár
  • Varaforseti mögulega kosinn samhliða (en aðskilið) forseta til að fara með vald forseta í fjarveru hans
  • Forseta sé jafnvel falið frekara vald til aðhalds og eftirlits með framkvæmdavaldi, stjórnskipulega settur yfir Seðlabanka? Ríkissaksóknara? Lögregluna? Skoða alla þessa möguleika
Ég mun síðan fjalla um samband löggjafarvalds og framkvæmdavalds, mannréttindi, kosningar og önnur ákvæði í næstu færslum...

Hvernig á stjórnarskrá Íslands að vera?

Eftir að hafa lýst því nokkuð ítarlega hvers vegna mér þykir brýnt að breyta núverandi stjórnarskrá er ekki úr vegi að ég kynni aðeins mín sjónarmið um hvernig ný stjórnarskrá ætti að líta út.

Stjórnarskrá ríkis og samfélagssáttmáli þjóðar er eðli málsins samkvæmt afar viðamikið umfjöllunarefni þar sem mikið er hægt að læra af reynslu annarra þjóða og röksemdum annarra. Þess vegna set ég mínar hugmyndir, amk þær sem eru sértækar og útfærðar, fram með fyrirvara um að þetta eru ekki eiginleg "kosningaloforð" heldur tel ég mikilvægt að stjórnlagaþingmenn komi fram af auðmýkt og séu tilbúnir að gefa fyrirfram mótaðar hugmyndir sínar upp á bátinn ef tilefni gefst til.

Hins vegar er auðvitað mikilvægt að frambjóðendur setji fram sína sýn á stjórnarskránna, öðruvísi geta kjósendur varla gert málefnalega upp á milli 523 frambjóðenda. Ég byrja á að reifa hugmyndir mínar um nýja stjórnarskrá almennt en í næstu færslum mun ég fjalla sérstaklega um:

  • Forsetaembættið og dómstóla

  • Framkvæmdavald og löggjafarvald

  • Mannréttindi og kjördæmaskipan

  • Önnur ákvæði

Ég vil að meginþema nýrrar stjórnarskrár verði virkt lýðræði og vald fólksins. Hún á að ganga út frá réttindum almennings en ekki réttindum stjórnvalda. Allir valdhafar eiga að hafa skýrum hlutverkum að gegna, völd þeirra og valdmörk vel skilgreind og sömuleiðis ábyrgð þeirra á stjórnarathöfnum.

Stjórnarskráin ætti að mínu áliti að hefjast á skýru ákvæði um að vald ríkisins komi frá fólkinu og að ríkisvaldinu beri skylda til að tryggja réttindi allra borgara, mannlega reisn þeirra og tækifæri til þátttöku í samfélaginu. Síðan þætti mér eðlilegt að fjalla um grundvallarstofnanir ríkisvaldsins og hlutverk þeirra áður en þessi mannréttindi væru nánar útskýrð.

Ég er fylgjandi beinu lýðræði og tel það sérstaklega ákjósanlegt í jafn litlu, samrýmdu og tæknivæddu samfélagi og Ísland er. Ég er sömuleiðis hrifinn af samstöðulýðræði í stjórnmálum og vil að ráðamenn vinni saman að því að framfylgja vilja fólksins þegar því verður við komið en takist á á málefnalegum grundvelli þegar það á við.

Ég vil skapa pólitískt kerfi sem ýtir undir þessi gildi og venjur því stofnanir móta menningu og gott stjórnkerfi getur ýtt undir betri pólitíska menningu en þá sem hefur plagað þjóðina síðustu áratugi. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um hvaða kerfi tryggir þetta best og þar getum við lært ýmislegt af reynslu annarra ríkja.

Ég hef stúderað þetta í Háskólanum og kynnt mér í frístundum síðustu ár og vil reyna að koma góðum hugmyndum úr ólíkum áttum að sköpun íslensks lýðveldis. Í lýðræðishugmyndum er nefnilega einkennandi togstreita hugmynda um þrískiptingu valdsins annars vegar - og þingræði hins vegar. Báðar hugmyndir eru á góðum grundvelli byggðar.

Þrískipting valdsins og valddreifing gengur út á að enginn einn aðili eða hópur hafi burði til að valta yfir aðra eða misnota vald sitt, að réttindi borgaranna geti ekki verið fótum troðin af einstökum valdhöfum heldur sé aðhald tryggt.

Þingræðið byggir hins vegar á því að þjóðþingið sé lýðræðislegasta stofnun ríkisvaldsins og að framkvæmdavaldið þurfi að starfa í stuðningi þess. Það sé bæði lýðræðislegra og skilvirkara í störfum ríkisvaldsins að vilji fólksins nái fram að ganga í gegnum þingið. Breska hugmyndin um óskipt vald leiðtoga og skýra valkosti fólksins í kosningum eru þessu nátengdar.

Ég vil í stuttu máli reyna að feta ákveðinn milliveg milli þessara hugmynda, svipað og Frakkar gera með sínu franska “hálf-forsetaræði”; tryggja beint lýðræði, aðhald og valddreifingu en um leið samstöðulýðræði þar sem vilji fólksins nær fram að ganga með skilvirku ríkisvaldi. Íslendingar reyndu í upphafi aldarinnar að láta fulltrúalýðræði og beint lýðræði blómstra saman og það þykir mér verðugt markmið. Hugmyndir mínar í átt að þessu markmiði mun ég síðan útskýra betur í næstu færslum.


Hvað er svosum að stjórnarskránni? Tja...

500 frambjóðendur er alveg svakalega mikið af fólki. Ég er afar ánægður með og stoltur af þessum gífurlega áhuga þjóðarinnar á stjórnarskrá landsins en um leið vakna auðvitað upp spurningar um hvernig í ósköpunum fólk á að geta valið úr öllum þessum frambjóðendum? Mun ríkasta fólkið og þeir sem eiga flesta vini ekki eiga greiðastan aðgang að stjórnlagaþinginu?

Það er mjög erfitt að segja til um það. Ég persónulega ætla mér ekki að eyða krónu í þetta framboð  (f. utan smáaur í umslag til að skila inn framboði) heldur vonast ég til að ég geti komið mínum skoðunum, áherslum og hugmyndum á framfæri í gegnum þetta blogg og facebook, ég vona að "netlýðræðið" geti séð til þess á einhvern hátt að þessar kosningar verði á málefnalegum forsendum.

Þá kemur auðvitað að því að það er mikilvægt að frambjóðendur skýri hvers vegna þeir vilja á stjórnlagaþing og hvaða hugmyndir þeir hafa fyrir stjórnarskrá. Það er mikilvægt að kjósendum sé ljóst hvað greinir að þennan aragrúa frambjóðenda og það gæti reynst þrautinni þyngra, þar sem stefnumálin hljóma oftar en ekki óttalega keimlík.

Í síðasta bloggi útskýrði ég eina grundvallarástæðu þess að ég teldi brýna þörf á nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Ég hef nokkuð róttækar og skýrar hugmyndir um hvernig stjórnskipan Íslands á að vera og sterkar skoðanir á því hvernig stjórnarskráin í heild á að líta út, en áður en ég kynni þær langar mig að halda áfram að leggja grunninn fyrir það hvers vegna ég tel almennt nauðsynlegt að endurskoða alla stjórnarskránna og skrifa nýja.

Eins og ég sagði í síðasta bloggi er stjórnarskráin gömul en það þarf ekki að þýða að hún sé slæm. Hins vegar vil ég meina að fjöldamargar (eftirfarandi) greinar í stjórnarskránni orki tvímælis í nútímasamfélagi og séu einfaldlega úreltar, óljósar og/eða óþarfar að inntaki eða orðalagi.

Þetta eru býsna margar athugasemdir og ég skil vel að fólk nenni ekki að renna yfir þær allar, en það er kannski til marks um hvers vegna ég tel breytingar á stjórnarskránni svo nauðsynlegar. Ég reyni að hafa hverja athugasemd stutta og vísa ekki orðrétt í þær greinar sem ég geri athugasemd við, en þær má finna hér http://www.althingi.is/lagas/137/1944033.html

  • 1. gr. Hvað þýðir "Þingbundin stjórn"? Fræðimenn og þýðendur hafa ýmist túlkað það sem svo að stjórnvöld séu bundin af lögum þingsins eða að ríkisstjórnin þurfi að njóta stuðnings meirihluta þings. Þarf þetta ekki að vera skýrt?

  • 4. gr. Hvers vegna þarf forsetaframbjóðandi að vera 35 ára? Hvaðan kemur sú tala og mætti hún ekki vera lægri?

  • 11. gr. Forseti og þeir sem störfum hans gegna eru ábyrgðarlausir samkvæmt stjórnarskrá og verða ekki sóttir til refsingar. Hvað varð um jafnræði gagnvart lögum og að valdi fylgi ábyrgð?

  • 12. gr. Hvað merkir að ráðherrar "framkvæmi" vald forseta? Hefur hann valdið eða þeir og er réttlætanlegt að ráðherrar hafi fengið öll völd hans í hendur vegna umdeildrar túlkunar á þessari einu grein þegar ítrekað er fjallað um forsetann í stjórnarskránni? Sagt er að þetta hafi verið orðað svona upphaflega til að móðga ekki danska kónginn...

  • 13. gr. Hvers vegna er bara gert ráð fyrir einu ráðuneyti?

  • 14. gr. Ekki er útskýrt hér hvað landsdómur sé en hvers vegna þarf sérstakt dómstig fyrir ráðherra? Eru þeir ónæmari gagnvart lögum en aðrir þegnar?

  • 15. gr. Í reynd er verkaskipting og fjöldi ráðuneyta ekki í höndum framkvæmdavalds heldur setur Alþingi lög um það og hvert ráðuneyti skal aðeins heyra undir einn ráðherra. Þannig hefur löggjafarvaldið í reynd tekið til sín þetta vald sem framkvæmdavaldið á að hafa skv. stjórnarskrá.

  • 20. gr. Hvaða embættismenn skipar forseti og yfir hvaða embættismenn ná þessi ákvæði?

  • 25. gr., 38.gr. og 55. gr. Getur forseti lagt fram frumvörp? Það virðist ósamræmi í þessum greinum, ef ekki í inntaki (framkvæma vald...) þá alltént í orðalagi.

  • 29. gr. og 30. gr. Forseti getur ákveðið að láta saksókn niður falla, hreinsa mannorð og veitt undanþágur frá lögum. Er það réttlætanlegt vald forseta og er það á höndum hans eða forsætisráðherra?

  • 34. gr. Hvers vegna þarf óflekkað mannorð til að mega bjóða sig fram? Eiga ekki kjósendur að meta það hverju sinni?

  • 35. gr. Samkomudegi má breyta með lögum, hvers vegna er þá verið að taka hann fram í stjórnarskrá?

  • 39. gr. Hvers vegna er verið að fjalla um rannsóknarnefndir í stjórnarskrá? Þar er t.d. ekki  fjallað um fastanefndir.

  • 46. gr. Alþingi sker sjálft úr um lögmæti sitt, ætti það ekki að vera í höndum dómstóla? Amk að minnihluti Alþingis geti fengið úrskurð dómstóla um slíkt?

  • 48. gr. og 49. gr. Þessar greinar og grein 46. hljóma að mínu mati eins og Alþingi og alþingismenn séu í forgangi og beri valdið í íslensku samfélagi, frekar en fólkið. Hvers vegna njóta alþingismenn þessarar sérstöku friðhelgi?

  • 56. gr. Hvaða þýðingu hefur þessi grein um að Alþingi geti vísað ályktunum til ráðherra og hvað er hún að gera í stjórnarskrá?

  • 61. gr. Eiga dómarar að vera æviráðnir alvaldar dómstólanna með ríkuleg eftirlaun? Þrískipting valdsins er vissulega mikilvæg, en þurfa ekki að vera einhver úrræði og minni forréttindi dómara?

  • 62. gr. Hvers vegna er þjóðkirkja tiltekin í stjórnarskránni og hvers vegna lýtur þessi grein öðrum lögmálum en aðrar greinar stjórnarskrárinnar?

  • 64. gr. Er viðeigandi að tala sérstaklega um “Háskóla Íslands” í stjórnarskrá? Þessu má breyta með lögum, til hvers er það þá í stjórnarskrá?

  • 65. gr. Nauðsynlegt að tala tvívegis um jafnrétti kynja? Hvar er kynhneigð eða kynhegðun?

  • 68. gr. Nauðungarvinna á vitaskuld að vera bönnuð, en fellur samfélagsþjónusta vegna dómsúrskurðar undir þetta, og á hún að vera bönnuð?

  • 74. gr. Banna má mannfundi undir berum himni, hvað með mótmæli? Ef lögreglan telur óspektir líklegar má hún banna mótmæli skv. þessu?

  • 79. gr. Hvers vegna er ólíkt ferli fyrir breytingar á stjórnarskrá fyrir eina grein?

  • 80. gr. Þessi grein er einfaldlega tóm, er það ekki pínu neyðarlegt?

  • Aukaákvæði um stundarsakir – Hvers vegna í ósköpunum eru þau enn í stjórnarskránni? Býsna langar stundarsakir... Og hvers vegna er verið að leiðrétta grein í stjórnarskránni með annarri grein í lokin?

 

Ég vona að þessir punktar gefi betri innsýn í þankagang minn og skoðanir á stjórnarskránni. Ég tek fram að ég er ekki löglærður þó ég hafi lært um og kynnt mér stjórnarskrár og því kann að vera að til séu útskýringar á þessum punktum sem ég hef ekki á takteinum, en það beinir athygli að einni af grundvallargagnrýni minni á stjórnarskrána; hún á að vera skiljanleg og nothæf hinum almenna borgara, ekki einkamál lögfræðinga.

Mínar hugmyndir um nýja stjórnarskrá og hvernig ég vil sjá stjórnskipan landsins og samfélagssáttmála þjóðarinnar koma svo hingað brátt.




Hvers vegna stjórnlagaþing?

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til stjórnlagaþings og ég vona að þar gefist mér tækifæri til að taka þátt í að endurskrifa stjórnarskrá Íslands frá grunni, stjórnarskrá sem er samfélagssáttmáli fólksins í landinu og þjónar sínu hlutverki í reynd.

Frá því að hagkerfi okkar hrundi og íslenskt þjóðfélag lá í molum hefur mér þótt ljóst að núverandi stjórnarskrá er í litlu samhengi við pólitískan raunveruleika landsins og að hún er ekki mótuð eftir vilja fólksins. Hún á ekkert erindi við íslenskt samfélag lengur, hún hefur brugðist sínu hlutverki og þess vegna þurfum við nýja.

Stjórnarskrár eiga alltaf að vera undirstaða stjórnskipunar ríkisins og samfélagssáttmáli borgara landsins um valdmörk stjórnvalda og réttindi einstaklinga. Þannig skilgreinir hún hlutverk og ábyrgð pólitískra leikenda skýrt og á að tryggja fólkið í landinu gagnvart brotum á þessum valdheimildum - og gagnvart brotum á eigin réttindum.

Hinn almenni borgari á að geta vísað í stjórnarskrá ríkisins, á það stjórnskipulag sem ríkið byggir á, og andmælt því þannig þegar einstakir valdhafar fara út fyrir valdsvið sitt. Þetta skipulag á að vera skýrt í stjórnarskránni, í samræmi við vilja fólksins í landinu, og eftir þessum reglum skal ríkið starfa.

Stjórnarskrá Íslands er gömul og lítið breytt frá dönsku stjórnarskránni sem okkur var góðfúslega gefin 1874. Það þarf ekki að vera slæmt í sjálfu sér, en afleiðingin er sú að hún lýsir ekki lengur því stjórnkerfi sem við búum við í reynd og er þannig hætt að þjóna grundvallarhlutverki sínu.

Hvað sem fólki finnst um það (sem vonandi verður tekið fyrir á stjórnlagaþingi) lýsir stjórnarskrá lýðveldisins sterku valdi þjóðkjörins forseta sem fer með framkvæmdavald og deilir löggjafarvaldi með Alþingi. Þar er orðið "forseti" margendurtekið þegar núverandi hlutverkum ríkisstjórnar er lýst, þar er þingræði hvergi lýst (sumir túlka "þingbundinni stjórn" sem vísan í þingræði, aðrir ekki) og varla minnst á ráðherra, ríkisstjórn eða stjórnmálaflokka.

Þingræði, oddvitaræði, flokksræði og flokksagi er pólitískur raunveruleiki sem íslenska þjóðin hefur lengi búið við en stjórnarskrá ríkisins fjallar ekkert um á meðan meginumfjöllunarefni hennar og valdamesta embætti, forsetinn, er valdalaust puntembætti. Það hlýtur að teljast í besta falli hlálegt.

Þetta hefur haft alvarlegar afleiðingar undanfarin ár. Þannig er ég ekki að segja að við eigum að breyta stjórnarskránni því allt hrundi, heldur að hrunið hefur leitt í ljós stórfenglega meinbugi á núverandi stjórnarskrá; hún er löngu hætt að vera grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar og þess vegna erum við úrræðalítil gagnvart óréttlætinu.

Hlutverkin eru óskýr og ábyrgðin um leið. Hvernig á að draga ráðherra til ábyrgðar, í samræmi við það vald sem þeir fara með, þegar stjórnarskráin er óljós og úrelt hvað þessa ábyrgð varðar? Hvernig er hægt að draga oddvita flokks til ábyrgðar fyrir það hlutverk sitt þegar það á sér enga stoð í stjórnarskránni þó það hafi löngum verið gífurleg valdastaða? Hvernig getum við vísað í stjórnarskrána til að verja okkur fyrir ofríki stjórnmálaflokka þegar vald þeirra er sprottið úr venju sem hvergi er minnst á í stjórnarskránni?

Sagt er að stjórnarskrár geti ekki verið skýrar. Að merking orða breytist (hvernig væri að uppfæra þau eftir málskilningi meirihlutans þegar svo ber við?) og að grundvallarlögin verði að vera sveigjanleg.

Stjórnarskrár eiga vissulega ekki að smástýra (e. micro-manage) þjóðfélaginu eða stjórnsýslu þess, það er hlutverk stjórnvalda hverju sinni; en grundvallarskipun stjórnkerfisins á hins vegar aldrei að vera óljós eða taka breytingum eftir hentisemi valdhafa. Það er einmitt það sem stjórnarskrá á að koma í veg fyrir.

Ég tel að stjórnarskrá Íslands þurfi að lýsa stjórnkerfinu skýrt og ótvírætt, til að eftir henni sé farið og til að hún geti þjónað þessum grundvallartilgangi. Ég tel mjög mikilvægt að þessi stórnskipan sé í fullu samræmi við vilja fólksins og fyllilega skiljanleg hinum almenna borgara til að virka sem hemill þegar valdhafar ætla sér að fara út fyrir valdsvið sitt.

Þegar stjórnarskrá er löngu hætt að þjóna grundvallarhlutverki sínu er það eitt og sér næg réttlæting til að skrifa nýja. Ég er reyndar líka á því að orðalag hennar, uppsetning og innihald sé að mörgu leyti úrelt og úr samræmi við þjóðarviljann og ég held að hana megi nota til að móta miklu betri stjórnmál en við höfum hingað til búið við.

Ég útskýri það betur síðar og lýsi mínum hugmyndum um hvað megi vera í nýrri stjórnarskrá, en við skulum láta þetta nægja í bili.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband