Hvers vegna stjórnlagaþing?

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til stjórnlagaþings og ég vona að þar gefist mér tækifæri til að taka þátt í að endurskrifa stjórnarskrá Íslands frá grunni, stjórnarskrá sem er samfélagssáttmáli fólksins í landinu og þjónar sínu hlutverki í reynd.

Frá því að hagkerfi okkar hrundi og íslenskt þjóðfélag lá í molum hefur mér þótt ljóst að núverandi stjórnarskrá er í litlu samhengi við pólitískan raunveruleika landsins og að hún er ekki mótuð eftir vilja fólksins. Hún á ekkert erindi við íslenskt samfélag lengur, hún hefur brugðist sínu hlutverki og þess vegna þurfum við nýja.

Stjórnarskrár eiga alltaf að vera undirstaða stjórnskipunar ríkisins og samfélagssáttmáli borgara landsins um valdmörk stjórnvalda og réttindi einstaklinga. Þannig skilgreinir hún hlutverk og ábyrgð pólitískra leikenda skýrt og á að tryggja fólkið í landinu gagnvart brotum á þessum valdheimildum - og gagnvart brotum á eigin réttindum.

Hinn almenni borgari á að geta vísað í stjórnarskrá ríkisins, á það stjórnskipulag sem ríkið byggir á, og andmælt því þannig þegar einstakir valdhafar fara út fyrir valdsvið sitt. Þetta skipulag á að vera skýrt í stjórnarskránni, í samræmi við vilja fólksins í landinu, og eftir þessum reglum skal ríkið starfa.

Stjórnarskrá Íslands er gömul og lítið breytt frá dönsku stjórnarskránni sem okkur var góðfúslega gefin 1874. Það þarf ekki að vera slæmt í sjálfu sér, en afleiðingin er sú að hún lýsir ekki lengur því stjórnkerfi sem við búum við í reynd og er þannig hætt að þjóna grundvallarhlutverki sínu.

Hvað sem fólki finnst um það (sem vonandi verður tekið fyrir á stjórnlagaþingi) lýsir stjórnarskrá lýðveldisins sterku valdi þjóðkjörins forseta sem fer með framkvæmdavald og deilir löggjafarvaldi með Alþingi. Þar er orðið "forseti" margendurtekið þegar núverandi hlutverkum ríkisstjórnar er lýst, þar er þingræði hvergi lýst (sumir túlka "þingbundinni stjórn" sem vísan í þingræði, aðrir ekki) og varla minnst á ráðherra, ríkisstjórn eða stjórnmálaflokka.

Þingræði, oddvitaræði, flokksræði og flokksagi er pólitískur raunveruleiki sem íslenska þjóðin hefur lengi búið við en stjórnarskrá ríkisins fjallar ekkert um á meðan meginumfjöllunarefni hennar og valdamesta embætti, forsetinn, er valdalaust puntembætti. Það hlýtur að teljast í besta falli hlálegt.

Þetta hefur haft alvarlegar afleiðingar undanfarin ár. Þannig er ég ekki að segja að við eigum að breyta stjórnarskránni því allt hrundi, heldur að hrunið hefur leitt í ljós stórfenglega meinbugi á núverandi stjórnarskrá; hún er löngu hætt að vera grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar og þess vegna erum við úrræðalítil gagnvart óréttlætinu.

Hlutverkin eru óskýr og ábyrgðin um leið. Hvernig á að draga ráðherra til ábyrgðar, í samræmi við það vald sem þeir fara með, þegar stjórnarskráin er óljós og úrelt hvað þessa ábyrgð varðar? Hvernig er hægt að draga oddvita flokks til ábyrgðar fyrir það hlutverk sitt þegar það á sér enga stoð í stjórnarskránni þó það hafi löngum verið gífurleg valdastaða? Hvernig getum við vísað í stjórnarskrána til að verja okkur fyrir ofríki stjórnmálaflokka þegar vald þeirra er sprottið úr venju sem hvergi er minnst á í stjórnarskránni?

Sagt er að stjórnarskrár geti ekki verið skýrar. Að merking orða breytist (hvernig væri að uppfæra þau eftir málskilningi meirihlutans þegar svo ber við?) og að grundvallarlögin verði að vera sveigjanleg.

Stjórnarskrár eiga vissulega ekki að smástýra (e. micro-manage) þjóðfélaginu eða stjórnsýslu þess, það er hlutverk stjórnvalda hverju sinni; en grundvallarskipun stjórnkerfisins á hins vegar aldrei að vera óljós eða taka breytingum eftir hentisemi valdhafa. Það er einmitt það sem stjórnarskrá á að koma í veg fyrir.

Ég tel að stjórnarskrá Íslands þurfi að lýsa stjórnkerfinu skýrt og ótvírætt, til að eftir henni sé farið og til að hún geti þjónað þessum grundvallartilgangi. Ég tel mjög mikilvægt að þessi stórnskipan sé í fullu samræmi við vilja fólksins og fyllilega skiljanleg hinum almenna borgara til að virka sem hemill þegar valdhafar ætla sér að fara út fyrir valdsvið sitt.

Þegar stjórnarskrá er löngu hætt að þjóna grundvallarhlutverki sínu er það eitt og sér næg réttlæting til að skrifa nýja. Ég er reyndar líka á því að orðalag hennar, uppsetning og innihald sé að mörgu leyti úrelt og úr samræmi við þjóðarviljann og ég held að hana megi nota til að móta miklu betri stjórnmál en við höfum hingað til búið við.

Ég útskýri það betur síðar og lýsi mínum hugmyndum um hvað megi vera í nýrri stjórnarskrá, en við skulum láta þetta nægja í bili.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband