Hvað er svosum að stjórnarskránni? Tja...

500 frambjóðendur er alveg svakalega mikið af fólki. Ég er afar ánægður með og stoltur af þessum gífurlega áhuga þjóðarinnar á stjórnarskrá landsins en um leið vakna auðvitað upp spurningar um hvernig í ósköpunum fólk á að geta valið úr öllum þessum frambjóðendum? Mun ríkasta fólkið og þeir sem eiga flesta vini ekki eiga greiðastan aðgang að stjórnlagaþinginu?

Það er mjög erfitt að segja til um það. Ég persónulega ætla mér ekki að eyða krónu í þetta framboð  (f. utan smáaur í umslag til að skila inn framboði) heldur vonast ég til að ég geti komið mínum skoðunum, áherslum og hugmyndum á framfæri í gegnum þetta blogg og facebook, ég vona að "netlýðræðið" geti séð til þess á einhvern hátt að þessar kosningar verði á málefnalegum forsendum.

Þá kemur auðvitað að því að það er mikilvægt að frambjóðendur skýri hvers vegna þeir vilja á stjórnlagaþing og hvaða hugmyndir þeir hafa fyrir stjórnarskrá. Það er mikilvægt að kjósendum sé ljóst hvað greinir að þennan aragrúa frambjóðenda og það gæti reynst þrautinni þyngra, þar sem stefnumálin hljóma oftar en ekki óttalega keimlík.

Í síðasta bloggi útskýrði ég eina grundvallarástæðu þess að ég teldi brýna þörf á nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Ég hef nokkuð róttækar og skýrar hugmyndir um hvernig stjórnskipan Íslands á að vera og sterkar skoðanir á því hvernig stjórnarskráin í heild á að líta út, en áður en ég kynni þær langar mig að halda áfram að leggja grunninn fyrir það hvers vegna ég tel almennt nauðsynlegt að endurskoða alla stjórnarskránna og skrifa nýja.

Eins og ég sagði í síðasta bloggi er stjórnarskráin gömul en það þarf ekki að þýða að hún sé slæm. Hins vegar vil ég meina að fjöldamargar (eftirfarandi) greinar í stjórnarskránni orki tvímælis í nútímasamfélagi og séu einfaldlega úreltar, óljósar og/eða óþarfar að inntaki eða orðalagi.

Þetta eru býsna margar athugasemdir og ég skil vel að fólk nenni ekki að renna yfir þær allar, en það er kannski til marks um hvers vegna ég tel breytingar á stjórnarskránni svo nauðsynlegar. Ég reyni að hafa hverja athugasemd stutta og vísa ekki orðrétt í þær greinar sem ég geri athugasemd við, en þær má finna hér http://www.althingi.is/lagas/137/1944033.html

  • 1. gr. Hvað þýðir "Þingbundin stjórn"? Fræðimenn og þýðendur hafa ýmist túlkað það sem svo að stjórnvöld séu bundin af lögum þingsins eða að ríkisstjórnin þurfi að njóta stuðnings meirihluta þings. Þarf þetta ekki að vera skýrt?

  • 4. gr. Hvers vegna þarf forsetaframbjóðandi að vera 35 ára? Hvaðan kemur sú tala og mætti hún ekki vera lægri?

  • 11. gr. Forseti og þeir sem störfum hans gegna eru ábyrgðarlausir samkvæmt stjórnarskrá og verða ekki sóttir til refsingar. Hvað varð um jafnræði gagnvart lögum og að valdi fylgi ábyrgð?

  • 12. gr. Hvað merkir að ráðherrar "framkvæmi" vald forseta? Hefur hann valdið eða þeir og er réttlætanlegt að ráðherrar hafi fengið öll völd hans í hendur vegna umdeildrar túlkunar á þessari einu grein þegar ítrekað er fjallað um forsetann í stjórnarskránni? Sagt er að þetta hafi verið orðað svona upphaflega til að móðga ekki danska kónginn...

  • 13. gr. Hvers vegna er bara gert ráð fyrir einu ráðuneyti?

  • 14. gr. Ekki er útskýrt hér hvað landsdómur sé en hvers vegna þarf sérstakt dómstig fyrir ráðherra? Eru þeir ónæmari gagnvart lögum en aðrir þegnar?

  • 15. gr. Í reynd er verkaskipting og fjöldi ráðuneyta ekki í höndum framkvæmdavalds heldur setur Alþingi lög um það og hvert ráðuneyti skal aðeins heyra undir einn ráðherra. Þannig hefur löggjafarvaldið í reynd tekið til sín þetta vald sem framkvæmdavaldið á að hafa skv. stjórnarskrá.

  • 20. gr. Hvaða embættismenn skipar forseti og yfir hvaða embættismenn ná þessi ákvæði?

  • 25. gr., 38.gr. og 55. gr. Getur forseti lagt fram frumvörp? Það virðist ósamræmi í þessum greinum, ef ekki í inntaki (framkvæma vald...) þá alltént í orðalagi.

  • 29. gr. og 30. gr. Forseti getur ákveðið að láta saksókn niður falla, hreinsa mannorð og veitt undanþágur frá lögum. Er það réttlætanlegt vald forseta og er það á höndum hans eða forsætisráðherra?

  • 34. gr. Hvers vegna þarf óflekkað mannorð til að mega bjóða sig fram? Eiga ekki kjósendur að meta það hverju sinni?

  • 35. gr. Samkomudegi má breyta með lögum, hvers vegna er þá verið að taka hann fram í stjórnarskrá?

  • 39. gr. Hvers vegna er verið að fjalla um rannsóknarnefndir í stjórnarskrá? Þar er t.d. ekki  fjallað um fastanefndir.

  • 46. gr. Alþingi sker sjálft úr um lögmæti sitt, ætti það ekki að vera í höndum dómstóla? Amk að minnihluti Alþingis geti fengið úrskurð dómstóla um slíkt?

  • 48. gr. og 49. gr. Þessar greinar og grein 46. hljóma að mínu mati eins og Alþingi og alþingismenn séu í forgangi og beri valdið í íslensku samfélagi, frekar en fólkið. Hvers vegna njóta alþingismenn þessarar sérstöku friðhelgi?

  • 56. gr. Hvaða þýðingu hefur þessi grein um að Alþingi geti vísað ályktunum til ráðherra og hvað er hún að gera í stjórnarskrá?

  • 61. gr. Eiga dómarar að vera æviráðnir alvaldar dómstólanna með ríkuleg eftirlaun? Þrískipting valdsins er vissulega mikilvæg, en þurfa ekki að vera einhver úrræði og minni forréttindi dómara?

  • 62. gr. Hvers vegna er þjóðkirkja tiltekin í stjórnarskránni og hvers vegna lýtur þessi grein öðrum lögmálum en aðrar greinar stjórnarskrárinnar?

  • 64. gr. Er viðeigandi að tala sérstaklega um “Háskóla Íslands” í stjórnarskrá? Þessu má breyta með lögum, til hvers er það þá í stjórnarskrá?

  • 65. gr. Nauðsynlegt að tala tvívegis um jafnrétti kynja? Hvar er kynhneigð eða kynhegðun?

  • 68. gr. Nauðungarvinna á vitaskuld að vera bönnuð, en fellur samfélagsþjónusta vegna dómsúrskurðar undir þetta, og á hún að vera bönnuð?

  • 74. gr. Banna má mannfundi undir berum himni, hvað með mótmæli? Ef lögreglan telur óspektir líklegar má hún banna mótmæli skv. þessu?

  • 79. gr. Hvers vegna er ólíkt ferli fyrir breytingar á stjórnarskrá fyrir eina grein?

  • 80. gr. Þessi grein er einfaldlega tóm, er það ekki pínu neyðarlegt?

  • Aukaákvæði um stundarsakir – Hvers vegna í ósköpunum eru þau enn í stjórnarskránni? Býsna langar stundarsakir... Og hvers vegna er verið að leiðrétta grein í stjórnarskránni með annarri grein í lokin?

 

Ég vona að þessir punktar gefi betri innsýn í þankagang minn og skoðanir á stjórnarskránni. Ég tek fram að ég er ekki löglærður þó ég hafi lært um og kynnt mér stjórnarskrár og því kann að vera að til séu útskýringar á þessum punktum sem ég hef ekki á takteinum, en það beinir athygli að einni af grundvallargagnrýni minni á stjórnarskrána; hún á að vera skiljanleg og nothæf hinum almenna borgara, ekki einkamál lögfræðinga.

Mínar hugmyndir um nýja stjórnarskrá og hvernig ég vil sjá stjórnskipan landsins og samfélagssáttmála þjóðarinnar koma svo hingað brátt.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband