Hvernig á stjórnarskrá Íslands að vera?

Eftir að hafa lýst því nokkuð ítarlega hvers vegna mér þykir brýnt að breyta núverandi stjórnarskrá er ekki úr vegi að ég kynni aðeins mín sjónarmið um hvernig ný stjórnarskrá ætti að líta út.

Stjórnarskrá ríkis og samfélagssáttmáli þjóðar er eðli málsins samkvæmt afar viðamikið umfjöllunarefni þar sem mikið er hægt að læra af reynslu annarra þjóða og röksemdum annarra. Þess vegna set ég mínar hugmyndir, amk þær sem eru sértækar og útfærðar, fram með fyrirvara um að þetta eru ekki eiginleg "kosningaloforð" heldur tel ég mikilvægt að stjórnlagaþingmenn komi fram af auðmýkt og séu tilbúnir að gefa fyrirfram mótaðar hugmyndir sínar upp á bátinn ef tilefni gefst til.

Hins vegar er auðvitað mikilvægt að frambjóðendur setji fram sína sýn á stjórnarskránna, öðruvísi geta kjósendur varla gert málefnalega upp á milli 523 frambjóðenda. Ég byrja á að reifa hugmyndir mínar um nýja stjórnarskrá almennt en í næstu færslum mun ég fjalla sérstaklega um:

  • Forsetaembættið og dómstóla

  • Framkvæmdavald og löggjafarvald

  • Mannréttindi og kjördæmaskipan

  • Önnur ákvæði

Ég vil að meginþema nýrrar stjórnarskrár verði virkt lýðræði og vald fólksins. Hún á að ganga út frá réttindum almennings en ekki réttindum stjórnvalda. Allir valdhafar eiga að hafa skýrum hlutverkum að gegna, völd þeirra og valdmörk vel skilgreind og sömuleiðis ábyrgð þeirra á stjórnarathöfnum.

Stjórnarskráin ætti að mínu áliti að hefjast á skýru ákvæði um að vald ríkisins komi frá fólkinu og að ríkisvaldinu beri skylda til að tryggja réttindi allra borgara, mannlega reisn þeirra og tækifæri til þátttöku í samfélaginu. Síðan þætti mér eðlilegt að fjalla um grundvallarstofnanir ríkisvaldsins og hlutverk þeirra áður en þessi mannréttindi væru nánar útskýrð.

Ég er fylgjandi beinu lýðræði og tel það sérstaklega ákjósanlegt í jafn litlu, samrýmdu og tæknivæddu samfélagi og Ísland er. Ég er sömuleiðis hrifinn af samstöðulýðræði í stjórnmálum og vil að ráðamenn vinni saman að því að framfylgja vilja fólksins þegar því verður við komið en takist á á málefnalegum grundvelli þegar það á við.

Ég vil skapa pólitískt kerfi sem ýtir undir þessi gildi og venjur því stofnanir móta menningu og gott stjórnkerfi getur ýtt undir betri pólitíska menningu en þá sem hefur plagað þjóðina síðustu áratugi. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um hvaða kerfi tryggir þetta best og þar getum við lært ýmislegt af reynslu annarra ríkja.

Ég hef stúderað þetta í Háskólanum og kynnt mér í frístundum síðustu ár og vil reyna að koma góðum hugmyndum úr ólíkum áttum að sköpun íslensks lýðveldis. Í lýðræðishugmyndum er nefnilega einkennandi togstreita hugmynda um þrískiptingu valdsins annars vegar - og þingræði hins vegar. Báðar hugmyndir eru á góðum grundvelli byggðar.

Þrískipting valdsins og valddreifing gengur út á að enginn einn aðili eða hópur hafi burði til að valta yfir aðra eða misnota vald sitt, að réttindi borgaranna geti ekki verið fótum troðin af einstökum valdhöfum heldur sé aðhald tryggt.

Þingræðið byggir hins vegar á því að þjóðþingið sé lýðræðislegasta stofnun ríkisvaldsins og að framkvæmdavaldið þurfi að starfa í stuðningi þess. Það sé bæði lýðræðislegra og skilvirkara í störfum ríkisvaldsins að vilji fólksins nái fram að ganga í gegnum þingið. Breska hugmyndin um óskipt vald leiðtoga og skýra valkosti fólksins í kosningum eru þessu nátengdar.

Ég vil í stuttu máli reyna að feta ákveðinn milliveg milli þessara hugmynda, svipað og Frakkar gera með sínu franska “hálf-forsetaræði”; tryggja beint lýðræði, aðhald og valddreifingu en um leið samstöðulýðræði þar sem vilji fólksins nær fram að ganga með skilvirku ríkisvaldi. Íslendingar reyndu í upphafi aldarinnar að láta fulltrúalýðræði og beint lýðræði blómstra saman og það þykir mér verðugt markmið. Hugmyndir mínar í átt að þessu markmiði mun ég síðan útskýra betur í næstu færslum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband